Herman Melville

Herman Melville var bandarískur rithöfundur sem skrifaði jöfnum höndum skáldsögur, smásögur og ljóð. Helst er hann þó kunnur fyrir skáldsögur sínar og þá einkum skáldsöguna Moby Dick en hún hefur haldið nafni hans á lofti fram á daginn í dag, enda telst hún með merkustu skáldsögum allra tíma. En eins og með marga rithöfunda var tíminn honum ekki alltaf hliðhollur því síðustu þrjátíu ár ævinnar var hann nánast afskiptur eða gleymdur sem höfundur. Flestar sögur sínar byggði hann að einhverju leyti á eigin upplifunum sem hann óf inn í þau heimspekikerfi sem hann hafði á takteinunum. Þá var hann mjög rýninn á eigið samfélag með öllum sínum andstæðum og mótsögnum.

Herman Melville fæddist 1. ágúst 1819 í New York borg, þriðja barn foreldra sinna. Fjölskyldan var ágætlega efnum búin en hún flutti inn þurrmat frá Frakklandi og verslaði með skinnavörur. Fékk hann hefðbundna menntun og þótti ágætur námsmaður.

En brátt fór að halla undir fæti hjá fjölskyldunni. Faðir hans hafði fengið mikið lánað og fyrirtækið var hætt að bera sig. Reyndu þau að draga saman seglin en allt kom fyrir ekki. Eftir nokkur erfið ár voru endalokin fyrirsjáanleg. Og þá veiktist faðir hans af lungnabólgu og lést árið 1832. Hafði þetta allt mikil áhrif á Herman og kemur það víða fram í skrifum hans.

Í kjölfarið varð Herman að hætta námi og hóf störf í banka. Starfaði hann þar í tvö ár en 1834 sagði hann upp í bankanum og fór að starfa hjá bróður sínum sem hafði komið á fót eigin fyrirtæki sem verslaði með skinn. Samhliða því reyndi hann að halda áfram námi sínu. En viðskiptin gengu ekki sem skyldi og árið 1837 varð bróðir hans gjaldþrota og fjölskyldan þurfti að flytja og settist að á bóndabæ. Féll það í hlut Hermans að reka býlið um tíma en samhliða því starfaði hann sem kennari til að sjá sér farborða. Á þessum árum fór hann að senda inn greinar um samfélagsmál í blöð.

Ekki er alveg vitað hvað Herman gerði þar á eftir en hann virðist hafa verið atvinnulaus um hríð. Þá ákvað hann að fara til sjós og fékk pláss sem léttadrengur um borð í fraktskipi sem sigldi til Liverpool og varð sú reynsla undirstaðan í sögunni Redburn sem kom út árið 1849. Þegar hann kom heim úr þeirri för fékk hann aftur starf við kennslu en hætti eftir eina önn þegar hann fékk ekki borgað sem skyldi.

Í kjölfarið réð hann sig á hvalskipið Acushnet þar sem hann entist í 18 mánuði en hann strauk frá borði þegar skipið lagðist í höfn á Marquesas eyjunum í Kyrrahafinu. Var það í júlí 1842. Fyrsta bókin hans, Typee (1846) er einmitt skálduð lýsing á dvöl hans þar meðal innfæddra, en hann dvaldi meðal þeirra í nokkrar vikur uns hann fékk far með áströlsku hvalveiðiskipi sem sigldi til Tahiti. Þar tók hann þátt í einhvers konar uppreisn og var fangelsaður um tíma. Í kjölfarið flæktist hann um eyjar í Kyrrahafinu og reyndi að draga fram lífið sem best hann gat þangað til hann fékk pláss sem háseti á bandarísku herskipi sem sigldi til Boston. Kom hann þangað í október 1844. Hafði allt þetta flakk mikil áhrif á Herman og varð honum drjúgur efniviður er hann hóf að skrifa skáldsögur.

Heimkominn settist hann við skriftir og skrifaði bókina Typee sem áður er getið. Kom hún út 1846 og varð mjög vinsæl bæði í Bandaríkjunum og Bretlandi. Hefur fræðimönnum þótt erfitt að skilgreina þá bók, en þar lýsir hann dvöl sinni meðal innfæddra en um leið skáldar hann ýmislegt á milli. Ári síðar gerði hann framhald, Omoo (1847) sem einnig varð vinsæl.

Árið 1847 giftist hann Elizabeth Shaw og settust þau að í New York. Þar skrifaði hann þriðju bók sína Mardi, en sú bók náði ekki vinsældum fyrri bóka. Var hún allt öðruvísi en fyrri sögur, einhvers konar táknsaga í ímynduðum heimi. Næsta bók Melvilles var skáldsagan Redburn sem hann byggði á siglingu sinni til Liverpool sem ungur maður.

Árið 1850 flutti fjölskyldan til Massachusetts. Eignuðust þau fjögur börn, tvo drengi og tvær stúlkur.

Herman virðist hafa byrjað að skrifa Moby Dick árið 1849, allavega segir hann í bréfi til vinar síns árið 1850 að hann sé langt komin með söguna. Í Massachusetts komst hann í kynni við rithöfundinn Nathaniel Hawthorne sem hann tileinkaði söguna Moby Dick. Kom hún út á Englandi í október 1851 í þremur bindum og hét þá einfaldlega The Whale og mánuði síðar í Bandaríkjunum undir nafninu Moby Dick. Fékk bókin dræmar viðtökur, allt aðrar en Melville hafði búist við og vonað. Það sama átti við um næstu sögur hans.

Á árunum 1853 til 1856 fékkst Herman einkum við að skrifa stuttar sögur og greinar í blöð og sá sér farborða með því.

Samkvæmt Nathaniel Hawthorne átti Melville alltaf í töluverðri innri báráttu einkum hvað varðaði trú. Hann virðist ekki hafa verið trúaður en var þó aldrei yfirlýstur trúleysingi. Hann rambaði einhvern veginn á barminum og virtist hafa haft töluverðar áhyggjur af því.

Árið 1857 kom The Confidence-Man út en það var jafnframt síðasta skáldsagan sem kom út meðan hann var á lífi. Gekk hún ekki vel. Á þeim tímapunkti var honum ráðlagt að halda fyrirlestra út um öll Bandaríkin og víðar til að afla sér lifibrauðs.

Í kjölfarið upplifði hann mikla erfiðleika meðal annars í hjónabandinu en ættingjar konu hans vildu að hún skildi við hann og töldu hann geðveikan. Víst var að á hann sótti oft þunglyndi. Þau hjónin fluttu aftur til New York árið 1963 og nú tók Herman einkum að fást við ljóðagerð. Árið 1866 kom út ljóðasafnið Battle Pieces and Aspects of the War sem seldist lítið sem ekkert og fékk heldur ekki góða dóma.

Þegar þarna var komið gat Herman ekki lengur lifað af ritstörfum sínum og fékk að lokum stöðu sem tollvörður í New York. Samhliða því var hann þó alltaf að skrifa. Árið 1876 kom út eftir hann ljóðabálkur upp á 18.000 línur, Clarel: A Poem and a Pilgrimage, sem hann byggði á ferð sem hann hafði farið í til landsins helga árið 1856. Fékk hann frænda sinn til að kosta útgáfuna en bókin seldist lítið sem ekkert.

Árið 1886 gat Herman hætt að vinna og tók til við að semja nýja skáldsögu, sem hann byggði á ljóði sem hann hafði skrifað en auðnaðist ekki að ljúka henni. Fannst handritið að þeirri sögu árið 1919, tuttugu og átta árum eftir dauða hans. Það var síðan búið til útgáfu af fyrsta ævisagnaritara Hermans, Raymond Weaver og gefið út sem sagan Billy Budd, Sailor árið 1924.

Fékk sú saga mjög góðar viðtökur, bæði meðal almennings og gagnrýnenda. Var leikrit unnið upp úr sögunni og sett upp á Broadway og þá samdi enska tónskáldið Benjamin Britten óperu sem byggði á sögunni. Seinna var sagan kvikmynduð.

Herman naut þó þessarar síðbúnu velgengni ekki, en hann lést árið 1891 sjötíu og tveggja ára að aldri í New York.

Sem rithöfundur gekk Herman Melville í endurnýjun lífdaga í upphafi tuttugustu aldar, ekki síst eftir að sagan Billy Budd, Sailor kom út. Hafa verk hans verið metin að nýju og nú er Herman Melville flokkaður sem einn mesti ritsnillingur sem Bandaríkin hafa átt og litið er á skáldsöguna Moby Dick sem tímamótaverk sem enn gleður lesendur út um allan heim.